Pálína Agnes Baldursdóttir skrifar um ferð á Unify ráðstefnuna í Þýskalandi, 13.-16. febrúar.
Dagana 13-16 febrúar fór fram ráðstefnan Unify í Þýskalandi. Á ráðstefnunni voru um 120 mannst frá öllum mögulegum löndum og þar á meðal voru sex íslendingar ég, Dagrún, Berglind, Hjördís, Petra og Þorsteinn. Við lærðum ýmislegt, hlustuðum á mjög flotta fyrirlestra um trúna en þeir fjölluðu að miklu leyti um hvernig við værum sameinuð undir merki KFUM og sameinuð í kristi (Unify=sameina). Við kynntumst líka fullt af nýju fólki og áttum yndislegar lofgjörðastundir með Guði.
Mig langar til að segja ykkur frá því sem stóð upp úr hjá mér. Það var laugardagskvöldið, sem við notuðum að mestu leyti í lofgjörð. Það kvöld voru í boði fjórar stöðvar. Á fyrstu stöðinni var okkur boðið að fara og kveikja á kerti fyrir þá sem vantar ljós í lífið sitt, á næstu stöð var í boði að skrifa eitthvað sem maður vildi ekki gleyma á einhverskonar miða með einhverskonar penna sem hægt var síðan að borða. Þriðja stöðin var karatestöð, þar var hægt að taka spýtu og skrifa á hana vandamál sem maður vildi yfirstíga eða losna við. Á fjórðu stöðinni var hægt að fara í fyrirbæn, þar var fólk sem bað hvort fyrir öðru. Á meðan þetta var allt í gangi var líka hægt að sitja bara og hlusta á lofgjörð hljómsveitarinnar sem var á mótinu.
Þetta var að öllu leyti frábært mót þar sem ég lærði svo mikið, skemmti mér svo vel, kynntist frábæru fólki og fékk að vera partur af þessu flotta móti sem fullt af fólki er búið að standa í að skipuleggja heillengi. Ég er því ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu og fer klárlega á Unify aftur fái ég tækifæri til þess.
Íslenski hópurinn saman á Unify. Pálína, Berglind, Petra, Þorsteinn, Hjördís og Dagrún.
Mynd: Berglind Ósk Einarsdóttir