Dagana 13.-16. október var haldin ungmennaráðstefna í Róm á vegum Evrópusambandsins. Yfirskrift ráðstefnunnar var Efling ungmenna til stjórnmálaþátttöku. Ég fékk þann heiður að fá að taka þátt í henni fyrir hönd Æskulýðsvettvangsins (ÆV), sem KFUM og KFUK á Íslandi er hluti af. Einnig fóru á ráðstefnuna Berglind Ósk frá KFUM og KFUK og Sigmundur frá LÆF fyrir hönd Landssambands æskulýðsfélaga. Þegar við lögðum af stað í ferðina var ég mjög spennt en á sama tíma örlítið stressuð. Stressið var vegna þess að ég vissi ekki alveg út í hvað ég var búin að koma mér og var hrædd um að vita minna en hinir þátttakendurnir um Evrópusambandið og stjórnmálaþátttöku ungmenna.
Þegar ráðstefnan hófst hlustuðum við á nokkrar ræður til að byrja með. Margar þeirra voru áhugaverðar og þótti mér ræða Manfred Zentner sérstaklega góð. Ræðan fjallaði meðal annars um það hvort lýðræðið sé í hættu því sífellt færra fólk nýtir sér kosningarétt sinn nú til dags en áður fyrr. Mér þótti það pínu fyndið að sumar ræðurnar voru á ítölsku og við sem töluðum ekki ítölsku vorum þá með heyrnartól með enskri þýðingu á meðan ræðunni stóð.
Okkur þátttakendunum hafði verið skipt upp í vinnuhópa og hafði hver hópur sitt umræðuefni í tengslum við yfirskrift ráðstefnunnar. Minn hópur fjallaði um upplýsingar, að ná til ungmenna og að efla þau til þátttöku í stjórnmálum. Mér þóttu margar umræðurnar sem komu upp í vinnuhópnum mínum þarfar og mikilvægar. Við komum hugmyndum okkar á framfæri og unnum vel saman. Ég komst fljótt að því að stressið í upphafi ferðarinnar hafði verið algjör óþarfi, ég var álíka vel að mér og langflestir hinna þátttakendanna. Það var mikill léttir! Hver hópur útbjó stutta lýsingu á ástandinu eins og það er í dag út frá sínu umfjöllunarefni. Því næst voru hugmyndir allra hópanna sameinaðar í eitt skjal.
Við fórum líka í aðra vinnuhópa til að ræða aðgengi ungmenna að réttindum sínum. Við sem vorum í mínum hóp ræddum um réttindi ungs fólks til húsnæðis, lána, tekna og velferðar. Við komum með tillögur um það hvernig væri hægt að bæta ástandið og auka aðgengi ungmenna að þessum réttindum sínum. Hinir hóparnir gerðu slíkt hið sama og aftur var gert skjal með hugmyndum allra hópanna.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í ráðstefnunni og þótti hún skemmtileg. Það var ótrúlega merkilegt að heyra um hversu ólíkar aðstæður þátttakendurnir á ráðstefnunni búa þrátt fyrir að vera allir búsettir í Evrópu. Þó svo að við værum ólík unnum við vel saman og umræðurnar einkenndust af tillitssemi. Ég lærði líka helling um Evrópusambandið sem ég vissi ekki áður en ég kom og finnst áhugavert að kynna mér það betur. Svo var heldur ekki leiðinlegt að ná að kíkja á Colosseum og að fá smá nasaþef af því hvað Róm er falleg borg.
-Kristín Gyða Guðmundsdóttir