Leiðtoginn og sumarbúðastarfsmaðurinn Dagrún Linda Barkardóttir (22 ára) flutti til Munchen, Þýskalandi, í lok ágúst 2014 til að taka þátt í árslöngu verkefni með CVJM (KFUM í Þýskalandi). Hér leyfir hún okkur að fylgjast með ævintýrum sínum þar ytra.
Það fer að detta í að ég sé búin að vera hérna í 5 mánuði og ansi margt búið að vera í gangi! Ég er farin að tala þýsku ágætlega, sem betur fer því eg er farin að vinna í prógrammi sem kallast OGS, þ.e.a.s. við förum í skólann þeirra, hjálpum þeim með heimavinnuna og förum svo í frístundaheimilið þar til þau eru sótt.
Það er alltaf hellingur að gera hérna, hvort sem það sé innan CVJM eða við sjálf að stytta okkur stundir með að fara á Oktoberfest eða í bíó eða hvað sem okkur dettur í hug. Í nóvember var „lebenswoche“ í CVJM sem þýðir að krakkar á aldrinum 13-18 bjuggu í eina viku á farfuglaheimili CVJM og þau fóru líka í skólann þessa viku. Viku seinna var svo jólamarkaður CVJM, það var meira fjörið og hver centimeter af húsinu notaður! Húsið stappaðist af fólki og voru margskonar básar að selja ýmiss konar varning. Þar var meðal annars að finna Kólumbíu-bás og Hvíta-Rússlands-bás, og svo voru allskonar þýskir jólabásar, vöfflur, kökuhlaðborð, bistro, veitingar og fjórir litlir sætir tónleikar. Vægast sagt mjög mikið í gangi í einu þessa helgi.
Ég er búin að fara á fleiri seminar og þess háttar þar sem við erum að læra heilan helling af nytsamlegum hlutum sem maður lærir svo betur með reynslu, til dæmis ens og hvernig tekur maður ákvarðanir, hvernig maður leysir vandamál, hvað maður getur gert í hinum og þessum aðstæðum og líka hluti eins og að hekla!
Jólin hja mér voru æði. Ég kom ekki heim til Íslands, sem var erfitt i jólaundirbúningnum, vitandi að ég myndi ekki fá laufarbrauð um jólin. Mér fannst það frekar erfitt. Svo kom að jólunum sem ég eyddi með 10 manna fjölskyldu! Ein mamma, einn pabbi og átta alsystkini á aldrinum sex vikna til 19 ára. Það var aldeilis líf og fjör, við fórum i kirkju klukkan fjögur á aðfangadag, borðuðum lasagne klukkan sex, sungum jólalög, fengum okkur eftirrétt, spiluðum spil og fórum að sofa. Við opnuðum svo pakkana ekki fyrr en 25. desember sem var ansi þægilegt. Þetta þýddi ekkert stress a aðfangadag og svo var hægt að opna pakkana beint eftir morgunmat og eyða öllum deginum í að skoða jólagjafirnar. Ég verð að segja að þrátt fyrir eitt og annað sem vantaði í jólin þetta árið að þá finnst mér þetta algjör snilld. Þetta er hinsvegar hefð hjá þessari fjölskyldu og alls ekki þýskt.
Áramótunum fagnaði ég hérna heima, með þeim sem ég bý með. Við leigðum sal annarsstaðar i húsinu okkar og elduðum ofsa góðan mat og borðuðum saman, horfðum á mynda/video show frá undanförnum manuðum, spiluðum, spjölluðum, þeir sem gátu spiluðu á hljóðfæri, við settum upp ljósmyndunarhorn og fleira. Á miðnætti fórum við upp a 6. hæð og horfðum a flugeldana út um gluggann. Alveg hellingur sprengdur a bilinu fimm mínútur í til korter yfir miðnætti. Svo var það eiginlega bara búið.
Margt er búið að gerast menningarsjokklega-séð líka. Þjóðverjarnir sem ég þekki ætluðu að tapa sér þegar ég þéraði ekki lögregluna til dæmis. Ég var sem sagt stoppuð vegna þess að það eru ekki ljós á hjólinu mínu. Þá þúaði ég lögguna þegar ég reyndi að tala þýsku en þurfti svo sem betur fer ekki að borga háa sekt og fá mögulega punkt á ökuferilinn minn. Stundum er gott að vera útlendingur, löggan gefst greinilega bara upp á manni.
Jæja, eftir smá er kvöldmatur og svo horfum við loksins á síðasta partinn af Lord of the Rings 3 en við erum búin að taka sex kvöld í að horfa a hálfa og hálfa mynd í einu. Erum aðeins farin að velta fyrir okkur hvað við eigum svo að gera þegar myndirnar eru búnar.
Bis später!
Dagrún Linda Barkardóttir