Gerum eitthvað, einhverstaðar! Fjórir fulltrúar Íslands á aðalfundi KFUM í Evrópu

Unnur Ýr Kristinsdóttir og Páll Ágúst Þórarinsson flugu til Madrid nú í maí, þar sem þau sóttu aðalfund KFUM í Evrópu ásamt Birgi Ásgeirssyni og Tinnu Rós Steinsdóttur. Einnig sóttu þau svokallað YES námskeið í þrjá daga áður en aðalfundurinn byrjaði.
Unnur Ýr deilir hér reynslu sinni með okkur.

Í byrjun maí síðastliðinn þá héldum ég, Unnur Ýr Kristinsdóttir og Páll Ágúst Þórarinsson á vit ævintýranna til Madrid á YES námskeið og á aðalfund KFUM í

Evrópu. Við fengum þann heiður að fara þangað fyrir hönd KFUM og KFUK á Íslandi. Einnig sátu Birgir Ásgeirsson og Tinna Rós Steinsdóttir aðalfundinn en Tinna Rós sá um skipulag á YES-námskeiðinu sem við sóttum.

Ferðalagið hjá okkur Páli hófst mánudaginn 2. maí snemma morguns þar sem við flugum til London og stoppuðum þar í smá stund áður en leiðin lá til Madrid. Þar tók við YES-námskeiðið þar sem var virkilega þétt dagskrá frá mánudegi til fimmtudags. Við unnum mikið í hópavinnu og áttum góðar umræður bæði í stærri og minni hópum.Það var gaman að sjá hvernig hópurinn þróaðist á svona stuttum tíma, frá því að fáir vildu tjá sig í að umræðurnar urðu mjög áhugaverðar. Í þessum hóp myndaðist ævilöng vinátta á milli margra og mikill samhugur var á milli þátttakenda.
Þetta var mjög áhugavert og lærdómsríkt námskeið, þar sem valdefling ungs fólks var í algjörum brennidepli. Allir  þátttakendur voru tilbúnir til að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif. KFUM í Evrópu á að vera stolt af því hversu öflugt ungt fólk tilheyrir þessum félagasamtökum.

Seinni partinn á fimmtudeginum færðum við okkur yfir á annað hótel þar sem aðalfundurinn fór fram. Stefna KFUM í Evrópu, Towards 2020, var mikið rædd og miklar umræður í kringum hana. Einnig voru kosningar um breytingar á lögum KFUM í Evrópu og var þátttakan í þeirri umræðu mikil upplifun fyrir mig og heilmikill lærdómur.
Sá fyrirlestur sem stóð sem mest upp úr á þessum fundi var fluttur af Jim Thomson um hans starf með flóttamönnum í gegnum KFUM. Það var setning sem hann sagði sem á eftir að fylgja mér um ókomna tíð; „do something somewhere“- Ekki gera ekki neitt, gerum eitthvað einhverastaðar. Mjög áhifaríkur fyrirlestur sem snerti alla sem hlustuðu.

Á meðan á aðalfundinum stóð sat Birgir á milli mín og Páls og útskýrði fyrir okkur hvað væri að eiga sér stað hverju sinnu og af hverju. Aðalfundurinn var mjög áhugaverður og mikill lærdómur átti sér stað. Á laugardeginum var síðan vettvangsferð þar sem við fengum að skoða Madrid með sjálfboðaliðum frá KFUM í Madrid. Madrid er skemmtileg borg og gaman að sjá fjölbreytt mannlíf. Við borðuðum öll síðustu kvöldmáltíðina saman á Plaza Mayor sem er aðaltorgið í borginni.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta frábæra tækifæri að fá að fara á YES- námskeiðið og
aðalfundinn. Það var gaman að sjá hversu mikilvægt starf okkar hjá KFUM og KFUK Íslandi er. Ég lærði heilmikið í þessari ferð og fékk fullt af hugmyndum til að gera starf okkar hér á Íslandi ennþá betra. Þá sérstaklega tók ég með mér reynsluna af YES-námskeiðinu og stefnu KFUM í Evrópu sem nefnd er hér að ofan. Tengslanetið stækkar aldeilis eftir svona ferð og gaman að sjá hvað það eru mörg tækifæri fyrir okkur erlendis í samvinnu við önnur Evrópulönd. Þessi ferð var mjög hvetjandi og vonandi að þær hugmyndir sem urðu til verði að veruleika!

Gerum eitthvað einhverstaðar!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s