Gerum eitthvað, einhverstaðar! Fjórir fulltrúar Íslands á aðalfundi KFUM í Evrópu

Unnur Ýr Kristinsdóttir og Páll Ágúst Þórarinsson flugu til Madrid nú í maí, þar sem þau sóttu aðalfund KFUM í Evrópu ásamt Birgi Ásgeirssyni og Tinnu Rós Steinsdóttur. Einnig sóttu þau svokallað YES námskeið í þrjá daga áður en aðalfundurinn byrjaði.
Unnur Ýr deilir hér reynslu sinni með okkur.

Í byrjun maí síðastliðinn þá héldum ég, Unnur Ýr Kristinsdóttir og Páll Ágúst Þórarinsson á vit ævintýranna til Madrid á YES námskeið og á aðalfund KFUM í

Evrópu. Við fengum þann heiður að fara þangað fyrir hönd KFUM og KFUK á Íslandi. Einnig sátu Birgir Ásgeirsson og Tinna Rós Steinsdóttir aðalfundinn en Tinna Rós sá um skipulag á YES-námskeiðinu sem við sóttum.

Ferðalagið hjá okkur Páli hófst mánudaginn 2. maí snemma morguns þar sem við flugum til London og stoppuðum þar í smá stund áður en leiðin lá til Madrid. Þar tók við YES-námskeiðið þar sem var virkilega þétt dagskrá frá mánudegi til fimmtudags. Við unnum mikið í hópavinnu og áttum góðar umræður bæði í stærri og minni hópum.Það var gaman að sjá hvernig hópurinn þróaðist á svona stuttum tíma, frá því að fáir vildu tjá sig í að umræðurnar urðu mjög áhugaverðar. Í þessum hóp myndaðist ævilöng vinátta á milli margra og mikill samhugur var á milli þátttakenda.
Þetta var mjög áhugavert og lærdómsríkt námskeið, þar sem valdefling ungs fólks var í algjörum brennidepli. Allir  þátttakendur voru tilbúnir til að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif. KFUM í Evrópu á að vera stolt af því hversu öflugt ungt fólk tilheyrir þessum félagasamtökum.

Seinni partinn á fimmtudeginum færðum við okkur yfir á annað hótel þar sem aðalfundurinn fór fram. Stefna KFUM í Evrópu, Towards 2020, var mikið rædd og miklar umræður í kringum hana. Einnig voru kosningar um breytingar á lögum KFUM í Evrópu og var þátttakan í þeirri umræðu mikil upplifun fyrir mig og heilmikill lærdómur.
Sá fyrirlestur sem stóð sem mest upp úr á þessum fundi var fluttur af Jim Thomson um hans starf með flóttamönnum í gegnum KFUM. Það var setning sem hann sagði sem á eftir að fylgja mér um ókomna tíð; „do something somewhere“- Ekki gera ekki neitt, gerum eitthvað einhverastaðar. Mjög áhifaríkur fyrirlestur sem snerti alla sem hlustuðu.

Á meðan á aðalfundinum stóð sat Birgir á milli mín og Páls og útskýrði fyrir okkur hvað væri að eiga sér stað hverju sinnu og af hverju. Aðalfundurinn var mjög áhugaverður og mikill lærdómur átti sér stað. Á laugardeginum var síðan vettvangsferð þar sem við fengum að skoða Madrid með sjálfboðaliðum frá KFUM í Madrid. Madrid er skemmtileg borg og gaman að sjá fjölbreytt mannlíf. Við borðuðum öll síðustu kvöldmáltíðina saman á Plaza Mayor sem er aðaltorgið í borginni.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta frábæra tækifæri að fá að fara á YES- námskeiðið og
aðalfundinn. Það var gaman að sjá hversu mikilvægt starf okkar hjá KFUM og KFUK Íslandi er. Ég lærði heilmikið í þessari ferð og fékk fullt af hugmyndum til að gera starf okkar hér á Íslandi ennþá betra. Þá sérstaklega tók ég með mér reynsluna af YES-námskeiðinu og stefnu KFUM í Evrópu sem nefnd er hér að ofan. Tengslanetið stækkar aldeilis eftir svona ferð og gaman að sjá hvað það eru mörg tækifæri fyrir okkur erlendis í samvinnu við önnur Evrópulönd. Þessi ferð var mjög hvetjandi og vonandi að þær hugmyndir sem urðu til verði að veruleika!

Gerum eitthvað einhverstaðar!

Dagrún Linda er tæplega hálfnuð með veru sína hjá CVJM í Þýskalandi, þar sem hún hélt jólin hátíðleg með þýskri fjölskyldu.

Leiðtoginn og sumarbúðastarfsmaðurinn Dagrún Linda Barkardóttir (22 ára) flutti til Munchen, Þýskalandi, í lok ágúst 2014 til að taka þátt í árslöngu verkefni með CVJM (KFUM í Þýskalandi). Hér leyfir hún okkur að fylgjast með ævintýrum sínum þar ytra.

Það fer að detta í að ég sé búin að vera hérna í 5 mánuði og ansi margt búið að vera í gangi! Ég er farin að tala þýsku ágætlega, sem betur fer því eg er farin að vinna í prógrammi sem kallast OGS, þ.e.a.s. við förum í skólann þeirra, hjálpum þeim með heimavinnuna og förum svo í frístundaheimilið þar til þau eru sótt.
Það er alltaf hellingur að gera hérna, hvort sem það sé innan CVJM eða við sjálf að stytta okkur stundir með að fara á Oktoberfest eða í bíó eða hvað sem okkur dettur í hug. Í nóvember var „lebenswoche“ í CVJM sem þýðir að krakkar á aldrinum 13-18 bjuggu í eina viku á farfuglaheimili CVJM og þau fóru líka í skólann þessa viku. Viku seinna var svo jólamarkaður CVJM, það var meira fjörið og hver centimeter af húsinu notaður! Húsið stappaðist af fólki og voru margskonar básar að selja ýmiss konar varning. Þar var meðal annars að finna Kólumbíu-bás og Hvíta-Rússlands-bás, og svo voru allskonar þýskir jólabásar, vöfflur, kökuhlaðborð, bistro, veitingar og fjórir litlir sætir tónleikar. Vægast sagt mjög mikið í gangi í einu þessa helgi.
Ég er búin að fara á fleiri seminar og þess háttar þar sem við erum að læra heilan helling af nytsamlegum hlutum sem maður lærir svo betur með reynslu, til dæmis ens og hvernig tekur maður ákvarðanir, hvernig maður leysir vandamál, hvað maður getur gert í hinum og þessum aðstæðum og líka hluti eins og að hekla!

Það er nóg að gera hjá Dagrúnu í Þýskalandi.

Það er nóg að gera hjá Dagrúnu í Þýskalandi.

Jólin hja mér voru æði. Ég kom ekki heim til Íslands, sem var erfitt i jólaundirbúningnum, vitandi að ég myndi ekki fá laufarbrauð um jólin. Mér fannst það frekar erfitt. Svo kom að jólunum sem ég eyddi með 10 manna fjölskyldu! Ein mamma, einn pabbi og átta alsystkini á aldrinum sex vikna til 19 ára. Það var aldeilis líf og fjör, við fórum i kirkju klukkan fjögur á aðfangadag, borðuðum lasagne klukkan sex, sungum jólalög, fengum okkur eftirrétt, spiluðum spil og fórum að sofa. Við opnuðum svo pakkana ekki fyrr en 25. desember sem var ansi þægilegt. Þetta þýddi ekkert stress a aðfangadag og svo var hægt að opna pakkana beint eftir morgunmat og eyða öllum deginum í að skoða jólagjafirnar. Ég verð að segja að þrátt fyrir eitt og annað sem vantaði í jólin þetta árið að þá finnst mér þetta algjör snilld. Þetta er hinsvegar hefð hjá þessari fjölskyldu og alls ekki þýskt.

Áramótunum fagnaði ég hérna heima, með þeim sem ég bý með. Við leigðum sal annarsstaðar i húsinu okkar og elduðum ofsa góðan mat og borðuðum saman, horfðum á mynda/video show frá undanförnum manuðum, spiluðum, spjölluðum, þeir sem gátu spiluðu á hljóðfæri, við settum upp ljósmyndunarhorn og fleira. Á miðnætti fórum við upp a 6. hæð og horfðum a flugeldana út um gluggann. Alveg hellingur sprengdur a bilinu fimm mínútur í til korter yfir miðnætti. Svo var það eiginlega bara búið.

Margt er búið að gerast menningarsjokklega-séð líka. Þjóðverjarnir sem ég þekki ætluðu að tapa sér þegar ég þéraði ekki lögregluna til dæmis. Ég var sem sagt stoppuð vegna þess að það eru ekki ljós á hjólinu mínu. Þá þúaði ég lögguna þegar ég reyndi að tala þýsku en þurfti svo sem betur fer ekki að borga háa sekt og fá mögulega punkt á ökuferilinn minn. Stundum er gott að vera útlendingur, löggan gefst greinilega bara upp á manni.

Jæja, eftir smá er kvöldmatur og svo horfum við loksins á síðasta partinn af Lord of the Rings 3 en við erum búin að taka sex kvöld í að horfa a hálfa og hálfa mynd í einu. Erum aðeins farin að velta fyrir okkur hvað við eigum svo að gera þegar myndirnar eru búnar.

Bis später!

Dagrún Linda Barkardóttir

Endurnýjaði lífskraftinn á Global Week í Noregi

Leiðtoginn og KSS stjórnarmaðurinn Ísak Henningsson (18 ára) var fulltrúi Íslands á Global Week og TT Festival, á vegum Y Global í Noregi 19-29 júní síðastliðinn. Hér segir hann frá ferðinni.

Ísak umvafinn nýjum vinum frá Noregi, Tékklandi, Madagaskar og Sri Lanka.

Ísak umvafinn nýjum vinum frá Noregi, Tékklandi, Madagaskar og Sri Lanka.

Ég lagði af stað til Noregs fullur eftirvæntingar en um leið örlítið kvíðinn. Aldrei áður hafði ég farið erlendis án þess að þekkja sálu. Sem betur fer þá hitti ég tvær vinkonur mínar úr KSS á flugvellinum og kom í ljós að við vorum öll á leiðinni til Osló. Þvílík tilviljun!  Eða hvað? Ég róaðist að minnsta kosti við að hitta þær. Þær voru á vegum Changemakers á meðan ég var á vegum Alþjóðaráðs KFUM og KFUK. Svo hitti ég hópinn minn, 50 ungmenni frá 14 mismunandi löndum, til dæmis Madagascar, Kenýu, Sri Lanka og Armeníu. Við gistum eina nótt á hosteli í Osló og fórum í skoðunarferð um borgina áður en við héldum til Gjøvik,  þar sem Global Week 2014 yrði haldið. Þar gistum við í lýðháskóla niður við strönd stærsta stöðuvatns í Noregi. Ekki slæmt!Á Global Week hlustuðum við á marga áhugaverða fyrirlestra, meðal annars um Stop Poverty herferðina og Free Palestine verkefni á vegum Y Global, og fórum í leiðtogaþjálfun og lærðum listina að segja sögur sem mér fannst áhugaverðast. Einnig deildum við menningu landa okkar á Menningarkvöldi sem var hápunktur ferðarinnar að mínu mati. Það var unun að sjá alla mismunandi dansana, tónlistina og siðina frá 14 löndum! Eftir Global Week þá var okkur boðið að taka þátt í TT hátíðinni,  kristni hátíð fyrir 1500 UD KFUM/K unglinga í Noregi. Margir þátttakendur gerðu það og var ég einn þeirra. Hlutverk okkar var að vera skemmtileg og fjölmenningarleg. Við sáum um Global Café þar sem við seldum Fairtrade vörur og fræddum norska unglinga um Stop Poverty og Free Palestine. Risastór umgjörð var um hátíðina og kvöldvökur í risastórum sal inni í helli, kallaður Fjellhallen þar sem við sáum um t. d. dans á opnunarhátíðinni og margt fleira. Ég var vægast sagt leiður við brottför en þó þakklátur og með endurnýjaðan lífskraft, tilbúinn til að takast á við ný verkefni heima fyrir.

Stop Poverty herferðin stóð fyrir frábæru partýi á TT hátíðinni.
Stop Poverty hópurinn stóð fyrir risa partýi á TT hátíðinni.

Fær að vinna með börnum í Þýskalandi

Leiðtoginn og sumarbúðastarfsmaðurinn Dagrún Linda Barkardóttir (22 ára) flutti til Munchen, Þýskalandi, í lok ágúst til að taka þátt í árslöngu verkefni með CVJM. Hér segir hún okkur frá fyrsta mánuðnum sínum þar í landi.

Komiði sæl kæru lesendur!

Æj nei, ég er ekki svona formleg. Ég veit bara ekki alveg hvernig maður skrifar blogg, en ég ætti kannski að kynna mig.

Ég heiti Dagrún Linda og er búin að vera í München, Þýskalandi undanfarinn mánuð og verð hér næstu 11 mánuði. Hvað er ég að gera? Jú bara að leita á vit ævintýranna! Ég er að vinna fyrir CVJM sem er einmitt KFUM á þýsku. Hér er ég s.s. stödd í prógrammi sem heitir Hausteam. Við erum 20 saman í þessu prógrammi, 9 strákar og 11 stelpur, við stelpurnar búum allar saman á 6. hæð en strákarnir búa saman í sama húsi á 1. hæð. Við erum í allskonar störfum, flestar stelpurnar þurfa eitthvað að vinna við að þrífa eða elda á hótelinu og svo eru 2 sem vinna við þrif á húsinu þar sem við búum og svo eru nokkrar sem fá (fyrir utan að elda og þrífa) að vinna með börnum. Ég er ein af þeim sem fær að gera það. Ég verð hluti af svokölluðu OGS, við s.s. förum í skóla hér nálægt og hjálpum börnum á aldrinum 11-15 ára með heimalærdóminn, svo förum við með þau í frístundaheimili, sem er reyndar í sama húsi og ég bý. OGS starfið er ekki byrjað enn þar sem skólarnir eru ekki byrjaðir. Fyrir utan sjálfa vinnuna fáum við að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi eins og er heima á Íslandi. Þ.e.a.s. vetrarstarfið, æskulýðsfundir, kaffihúsakvöld, æskulýðsfundir fyrir fullorðna og eldri, og e-ð miklu fleira! Starfið hérna er aðeins stærra en heima á Íslandi, enda búa 1 milljón fleiri hérna í borginni heldur en á öllu Íslandi. Sjálfboðaliðastarfið er ekki byrjað heldur enda er bara rétt að detta í haust hérna og allt að byrja bara handan við hornið. Ég er ekki með það á 100% hreinu hvenær það verður, en þetta eru Þjóðverjar sem sjá um þetta og það er engin lygi hvað Þjóðverjar eru skipulagðir og með allt á hreinu. Það mun ekkert fara framhjá mér hvenær neitt byrjar því það eru örugglega að minnsta kosti 3 manns með það á verkefnalistanum að segja mér frá hlutunum og svo um það bil 5 aðrir sem segja mér svo frá því líka til öryggis ef ég skildi ekki vita eða ef ég hefði ekki skilið eitthvað.

Þannig hér er allt á hreinu. Ég fer á þýskunámskeið á hverjum virkum degi og er öll að koma til í tungumálinu. Ég skil orðið lang flest og get gert mig skiljanlega á þýsku, en það er ansi erfitt að tala þetta blessaða tungumál. Enda með ágætlega flókinni málfræði sem er reyndar alveg eins og íslenska! Þessi mánuður er búinn að vera æðislegur, ég er búin að kynnast æðislegu fólki og þetta ár sem ég verð hérna lítur út fyrir að verða æðislegt! Ég hálfpartinn kvíði því að þurfa að kveðja og fara heim eftir 11 mánuði… En við sjáum til, það verður örugglega rosalega gaman að koma heim aftur!

Bis später!
Dagrún

Dagrún  fyrir miðju.

Dagrún er hér (fyrir miðju) með vinkonum sínum og samstarfskonum úr Vindáshlíð, Pálínu Agnesi og Guðlaugu Maríu.

120 manns tóku þátt í Unify í Þýskalandi

Pálína Agnes Baldursdóttir skrifar um ferð á Unify ráðstefnuna í Þýskalandi, 13.-16. febrúar.

Dagana 13-16 febrúar fór fram ráðstefnan Unify í Þýskalandi. Á ráðstefnunni voru um 120 mannst frá öllum mögulegum löndum og þar á meðal voru sex íslendingar ég, Dagrún, Berglind, Hjördís, Petra og Þorsteinn. Við lærðum ýmislegt, hlustuðum á mjög flotta fyrirlestra um trúna en þeir fjölluðu að miklu leyti um hvernig við værum sameinuð undir merki KFUM og sameinuð í kristi (Unify=sameina). Við kynntumst líka fullt af nýju fólki og áttum yndislegar lofgjörðastundir með Guði.

Mig langar til að segja ykkur frá því sem stóð upp úr hjá mér. Það var laugardagskvöldið, sem við notuðum að mestu leyti í lofgjörð. Það kvöld voru í boði fjórar stöðvar. Á fyrstu stöðinni var okkur boðið að fara og kveikja á kerti fyrir þá sem vantar ljós í lífið sitt, á næstu stöð var í boði að skrifa eitthvað sem maður vildi ekki gleyma á einhverskonar miða með einhverskonar penna sem hægt var síðan að borða. Þriðja stöðin var karatestöð, þar var hægt að taka spýtu og skrifa á hana vandamál sem maður vildi yfirstíga eða losna við. Á fjórðu stöðinni var hægt að fara í fyrirbæn, þar var fólk sem bað hvort fyrir öðru. Á meðan þetta var allt í gangi var líka hægt að sitja bara og hlusta á lofgjörð hljómsveitarinnar sem var á mótinu.

Þetta var að öllu leyti frábært mót þar sem ég lærði svo mikið, skemmti mér svo vel, kynntist frábæru fólki og fékk að vera partur af þessu flotta móti sem fullt af fólki er búið að standa í að skipuleggja heillengi. Ég er því ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu og fer klárlega á Unify aftur fái ég tækifæri til þess.

Image
Í
slenski hópurinn saman á Unify. Pálína, Berglind, Petra, Þorsteinn, Hjördís og Dagrún.
Mynd: Berglind Ósk Einarsdóttir

Lærðu af öðrum og kynntust sögu Póllands

gdynia_2-77

Við fengum þann frábæra og ómetanlega heiður að taka þátt í námskeiði á vegum YES og KFUM í Evrópu. Námskeiðið var haldið í Gdynia í Póllandi og við ásamt 35 öðrum þáttakendum frá mismundandi þjóðum allstaðar að úr Evrópu (plús Kanada) tókum þátt í þéttri og frábærri þjálfun sem búin var til af YES liðinu. Tinna Rós, formaður alþjóðaráðs KFUM&KFUK og stjórnarmeðlimur YES var öflug ásamt teyminu sínu og var Íslandi til fyrirmyndar með góðum störfum sínum.

Námskeiðið snérist um að búa til undirbúning á verkefni sem hver þáttakandi kom með á námskeiðið og vildi koma frá sér í sínu KFUM. Við Dagrún komum með verkefni sem snérist um heimilisofbeldi og upplýsun þess en við viljum auka umræðu um heimilisofbeldi í samfélaginu og auka ábyrgð hvers og eins í garði þess.

Dagskráin var þétt og stjórnað að stjörnuliði YES. Þáttakendurnir tóku einnig þátt í dagskrá námskeiðisins með alls kyns leikjum og athugasemdum. Námskeiðið einblíndi mikið á verkefnavinnu þáttakenda og var beytt svokallaðri „jafningja til jafningja“ aðferð (e. peer to peer training). Þar er einblínt á að læra af hvoru öðru í stað þess að hlusta á reynda fræðimenn og konur í margar klukkustundir. Við fengum auðvitað stuðning frá reyndum aðilum YES, YMCA Europe og meistara Romulo Dantas frá Heimssambandi KFUM.

Á námskeiðinu var einnig tekin fyrir saga staðarins sem við vorum á. Við horfðum á leikna mynd um upphaf falls Sovétríkjanna og fórum á raunveruleika staðinn þar sem það hófst og fengum að finna fyrir orku fólksins sem að fórnaði lífi sínu svo að komandi kynslóðir þurftu ekki að lifa undir kúguninni sem ríktí á þeim tíma. Við fórum á safn þar sem sýning var frá tíma kommúnismans, því hvernig fólkið lifði, hvað það þurfti að þola og hvað það gerði til þess að bjarga komandi kynslóðum. Það var mjög hughreystandi og maður getur ekkert annað en eflst, og þakkað fyrir daglegt brauð eftir svona reynslu. Takk.

Daníel Bergmann og Dagrún Linda Barkardóttir