Berglind Ósk Einarsdóttir skrifar um ferð á fjáröflunarráðstefnu KFUM í Evrópu (YMCA Europe) í Belgíu, 23.-25. janúar.
Dagana 23.-25. janúar var fjáröflunarráðstefna haldin á vegum KFUM í Evrópu (YMCA Europe) í Brussel, Belgíu. Þetta er í þriðja sinn sem slík ráðstefna fer fram og í öll skiptin hefur verið fulltrúi frá KFUM og KFUK á Íslandi. Í ár fórum við þrjú út: Berglind Ósk Einarsdóttir, Sveinn Valdimarsson og Þorsteinn Arnórsson.
Ráðstefnunni er ætlað að koma saman einstaklingum sem koma hvað mest að fjáröflun fyrir sín KFUM og KFUK félög. Hvort sem það eru launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar. Ætlunin er að kynna helstu leiðir í fjáröflun, bæði í einka- og opinberageiranum, og opna fyrir umræður um slík mál. Eflaust með von um að við getum lært hvert af öðru um hvað hefur virkað og hvað ekki í vissum aðstæðum. Einnig er mikilvægt á slíkri ráðstefnu að hitta aðra í sömu stöðu og vonandi mynda tengsl sem styrkja þar af leiðandi kjarna eða hjarta okkar hreyfingar.
Í ár voru um 25 manns sem komu saman í Brussel. Sú borg var víst valinn fyrir ráðstefnuna þetta árið þar sem Brussel er mikill miðpunktur í evrópskri pólitík þá helst vegna þess að höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru þar. Góður andi var í hópnum og allir viljugur með að deila sinni reynslu af fjáröflun, sem er svo sem ekki skrýtið þar sem við erum öll með sama heildarmarkmiðið. Dagskráin var þéttskipuð og má segja að of miklu efni var reynt að troða inn á sem stystum tíma. Juan S. Iglesias framkvæmdastjóri KFUM í Evrópu stjórnaði ráðstefnunni glæsilega.
Það sem stóð upp úr að mínu mati var fyrsti fyrirlestur ráðstefnunnar sem Jane Burns sá um. Hún fjallaði helst um þær fjáröflunarleiðir sem félögin geta nýtt sér og þá aðila sem eru í okkar innra og ytra umhverfi. Hún talaði um tekjukvarða fyrir sjálfbæra fjáröflun þar sem á einum endanum er það sem við biðjum um (gjafir) og hinn endinn er það sem við öflum á opnum markaði (sala á vöru). Einnig talaði hún um hvað fjáröflun er í raun mikið tengd við markaðssetningu. Mjög áhugavert og hefði verið gaman að heyra meira frá henni.
Áherslan á ráðstefnunni sjálfri var þó hvað mest á Evrópusambandið og hvaða styrktarleiðir eru í boði þar og hvernig við getum undirbúið okkar félag sem best undir að taka þátt í slíkum umsóknarferlum, til að mynda eins og Erasmus+. Mikil umræða var um hvort KFUM í Evrópu ætti að opna skrifstofu í Brussel svo að félögin ættu nánara aðgengi að upplýsingum varðandi Evrópusambandsstyrki. Skátahreyfingin var beðin um að koma og kynna örstutt fyrir okkur þeirra reynslu af að hafa skrifstofu í Brussel.
Annað sem kom fram var kynning á YMCA á Spáni, Ian Marr kynnti „Félagsáhrifa fjárfestingar módelið“ (e. Social Impact Investment Model) sem hann hefur unnið og þróað í sameiningu með lögfræðingum og hvaða YMCA sem er ætti að geta nýtt sér. Módelið sýnir hvernig þrír hópar geta unnið saman í að fá fjárfestingu strax fyrir viss verkefni og með tíma ef verkefninu gengur vel að þá getur það skilað peningunum tilbaka til fjárfestanna ásamt vöxtum.
Fjáröflun er og verður áfram mikilvægur þáttur af KFUM og KFUK á Íslandi og það er mikilvægt fyrir alla aðila félagsins að vera meðvitaðir um þær fjáröflunarleiðir sem eru í boði og nýta þær. Fjáröflun getur átt sér stað að svo mörgu leyti það getur verið með því að bjóða fólki að greiða meira þegar það greiðir sig inn á kaffisölu eða tónleika á okkar vegum, með því að endurvinna flöskur og gefa þann pening, sala á heimagerðum hlutum, fastur styrkur mánaðarlega og margt fleira. Það er ekkert of lítið eða ómerkilegt þegar kemur að fjáröflun, margt smátt gerir eitt stórt.